Skemmtilegu Íslandsmóti lokið

Nú er Íslandsmótinu lokið með sigri Hannesar. Eftir að hafa sýnt mikið öryggi allt mótið þá tapaði Hannes mjög óvænt í lokaumferðinni gegn Héðni Steingrímssyni sem gaf Birni kost á að ná Hannesi að vinningum. Þeir tefldu svo skemmtilegt einvígi seinna um daginn sem Hannes vann 1,5-0,5 þó að Björn hafi átt ágætis möguleika í því einvígi.

Sigur Hannesar kemur ekkert á óvart enda var hann að vinna sitt 12. Íslandsmót. Hannes hefur verið mjög atorkusamur síðustu misseri og hefur lagt stund á fjallgöngur og almenna líkamsrækt sem er greinilega að bera ríkulegan ávöxt því loksins fengum við að sjá glitta í gamla róbótinn sem vann fyrirhafnalausa sigra gegn þéttum andstæðingum. Er það mín von að Hannes haldi áfram á þessari braut og ef hann virkilega ætlar sér það þá tel ég hann eiga góða möguleika á að komast aftur yfir 2600. Nú eru komin meira en 10 ár síðan Hannes komst yfir 2600 en haldi hann rétt á spöðunum ætti það að vera raunhæft markmið og að því ætti hann að stefna.

Bjössi stóð sig líka frábærlega í mótinu og náði sínum fyrsta stórmeistara áfanga. Honum náði hann með því að vinna Braga bróðir sinn í lokaumferðinni og í kaupbæti fékk hann einvígi við Hannes um Íslandsmeistara titilinn eins og áður sagði. Hann getur borið höfuðið hátt enda lagði hann Hjörvar og Henrik um miðbik mótsins og hélt svo jafntefli gegn Héðni í skrautlegri skák. Svo tók raunveruleikinn upp á því að vera kaldhæðinn og paraði Bjössa á móti Braga í lokaumferðinni og held ég að það hafi í raun og veru verið fín pörun fyrir Bjössa því það var ljóst að um mikinn tilfinningarússibana yrði að ræða fyrir þá bræður og þar sem Bjössi er betri en Bragi í að tefla illa þá hentaði þetta ágætlega fyrir Bjössa. Þó ber að geta þess að skákin var ekkert illa tefld heldur var þetta áhugaverð baráttuskák þar sem Bjössi virtist alltaf hafa aðeins betra.

Mótið sjálft var vel heppnað og áður hef ég hrósað skákstaðnum og mótshöldurum. Það var fínt að tefla þarna og væri gaman ef mótið yrði á sama stað að ári, það hlýtur að vera gott fyrir alla aðila að nota þetta húsnæði meðan það er autt og ófrágengið að öðru leyti. Ég hef sagt það áður og endurtek nú að það er sjálfsagt mál að hafa mótið opið í tilefni af 100 ára afmæli mótsins en að sama skapi tel ég afar brýnt að mótið verði lokað á nýjan leik á næsta ári. Mótið hefur einfaldlega meiri vigt sé það lokað og það reynir meira á keppendurna sem þýðir að það nýtist keppendum betur í þeirri viðleitni að verða betri skákmenn.

Áður en mótið hófst las ég viðtalið við Friðrik Ólafsson í nýjasta SKÁK og tók ég sérstaklega eftir svari hans við spurningunni hvernig honum litist á skáklíf Íslendinga. Svar Friðriks var á þá leið að áhuginn virðist vera mikill en styrleikinn mætti vera meiri. Undir þetta tek ég heilshugar og vil ég líta á þetta sem áskorun Friðriks til skákmanna á Íslandi að bæta sig. Að mínu viti á þetta ekkert bara við toppmennina heldur líka við þá sem eru stigalægri. Áhuginn hlýtur að vera frumforsenda árangurs og á meðan áhuginn er mikill þá á að vera hægt að bæta sig, sama á hvaða styrkleikabili menn eru. Hver og einn skákmaður ætti að taka þessa áskorun Friðriks til sín og reyna að bæta sig sem skákmaður og að sama skapi tel ég að SÍ/Skákskólinn ætti að móta sér stefnu um það hvað sambandið geti gert til þess að eignast betri skákmenn. Ég tel að sóknarfærin séu mikil og það er hægt, án mikils tilkostnaðar, að fara markvisst í að búa til betri skákmenn. Það mætti t.d. prófa að halda námskeið sem standa undir sér sjálf fyrir skákmenn sem vilja læra að stúdera og vilja kynnast réttum aðferðum við að bæta sig.

Einnig mætti gera meira í að aðstoða okkar fremstu skákmenn og er ég þá aðallega að horfa í ráðgjöf og utanum hald. Okkar fremstu skákmenn upplifa sig örugglega frekar mikið eina á báti en SÍ gæti, án mikils tilkostnaðar, hjálpað þeim með ýmislegt. Inni í þessu gæti svo verið markmiðasetning fyrir hvern og einn afreksskákmann og svo fyrir sambandið í heild sinni (t.d. ná 1 skákmanni yfir 2600 innan x tíma, fjölga stórmeisturum um x innan x tíma o.s.fr.).

En aftur að mótinu sjálfu. Það var mikið um óvænt úrslit og sýnir það vitaskuld að breiddin í styrkleikanum er nokkuð mikil. Það er gaman að fylgjast með ungu mönnunum og margir þeirra eru efnilegir og eiga að geta hækkað vel á stigum á næstunni. Þeir Óliver, Mikael og Nökkvi geta vel farið yfir 2200 eftir ekki svo langan tíma og eins eru þeir Hilmir Freyr og Vignir Vatnar að standa sig vel. Fleiri sem voru að standa sig vel voru Símon Þórhallsson og Felix Steinþórsson og þannig mætti halda áfram að telja. Einnig stóðu margar af stelpunum sig vel. Að þessum hópum þarf að hlúa og eins þurfa skákmennirnir og konurnar að setja sér þau markmið að bæta sig og hækka á stigum.

Mín eigin frammistaða var nokkurn veginn í samræmi við stigin. Ég hefði viljað tefla betur gegn Hannesi og eins átti ég aldrei séns gegn Guðmundi Kjartanssyni og hefði þurft að gera betur þar. Þrátt fyrir þessi tvö töp átti ég smá séns á áfanga allt fram í næst síðustu umferð. Í þeirri umferð þurfti ég að fá einhvern með yfir 2200 en fékk Mikael Jóhann sem sennilega hefur styrkleika yfir 2200 en stigin eru 2022. Þar með var áfangasénsinn úr sögunni en með sigri gegn Mikael var ég í ágætis sénsum á verðlaunum fyrir síðustu umferðina með 6,5/9. Þá kom það sem ég vil kalla mjög ósanngjörn pörun og óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að hafa 10 umferða opið mót. Ég fékk svart gegn Hjörvari sem þýddi að ég var með svart í 6 skákum og hvítt í 4 skákum sem er einfaldlega ósanngjarnt. Skákinni tapaði ég mjög örugglega og er þetta ein versta kappskák mín í langan tíma enda var allur vindur úr mér við þessa pörun.

Ætli það sé ekki best að enda þennan pistil á áskoruninni frá Friðrik, “áhuginn virðist vera mikill en styrkleikinn mætti vera meiri”. Nú er okkar að sjá til þess að styrkleikinn verði meiri!

No comments yet.

Leave a Reply