Íslandsmótið í fullum gangi

Nú er Íslandsmótið komið af stað og að þessu sinni er það opið mót. Sitt sýnist hverjum um það fyrirkomulag og er mín skoðun sú að það sé sjálfsagt mál að prófa þetta svona í tilefni af 100 ára afmæli mótsins. Þó verður að segjast eins og er að mótið hefði mátt vera þéttara. Toppurinn er sterkur en það vantar fleiri sem eru með 2100 – 2400 til að gera mótið þéttara og þar af leiðandi skemmtilegra. Engu að síður hefur mótið farið mjög fjörlega af stað og mikið um óvænt úrslit. Tapið hjá Braga gegn Lofti Baldvinssyni er auðvitað með því óvæntara sem ég man eftir því Bragi hefur teflt sérlega vel síðustu misseri og raunar hafði hann farið taplaus í gegnum tvö síðustu Íslandsmót sem ber vott um mikinn styrkleika. Einnig var tapið hjá Héðni gegn hinum skoska Grove óvænt en mér segir svo hugur um að bæði Héðinn og Bragi láti þessi töp ekki á sig fá enda báðir mjög sterkir skákmenn og karakterar.

Nokkur önnur óvænt úrslit hafa átt sér stað sem er óþarfi að tíunda hér enda er mótinu gerð góð skil á www.skak.is og www.icelandicopen.com

Þarna má líka sjá efstu 12 skákirnar í hverri umferð. Taflmennskan hefur hingað til verið fjörleg og aðstæður í skáksal eru allar hinar bestu. Ekki veit ég hvernig það kom til að mótið yrði haldið á þessum stað en þetta er mjög vel heppnaður mótsstaður og er sennilega ekki hægt að finna betra útsýni yfir höfuðborgarsvæðið þannig að ef staðan er slæm er þó alltaf hægt að hugga sig við útsýnið. Góður andi er í skáksalnum og vil ég meina að Birna og hennar heimilislegu veitingar gegni mikilvægu hlutverki í að gera aðstæður hinar bestu. Einnig standa skákstjórnarnir og aðrir skipuleggjendur mótsins vel að öllu og eiga hrós skilið fyrir áhuga, eldmóð og fagmennsku. Eina athugasemd kom ég þó með í gær þegar mótið fór af stað og það var að engin klukka var í skáksalnum. Þar sem ég er einn af þeim sem hafa gríðarlega sterka þörf fyrir að vita hvað klukkan er öllum stundum þá ræddi ég þetta undir fjögur augu við viðeigandi aðila og viti menn, í morgun var komin veggklukkan kunnuglega úr TR og ég get andað léttar og notið útsýnisins án þess að hafa áhyggjur af því hvað tímanum líði.

Sjálfur hef ég farið vel af stað í mótinu og unnið þrjár fyrstu skákirnar og er ég vitaskuld ánægður með það. Á morgun kl. 17 fer 4. umferðin fram og vil ég hvetja sem flesta til að mæta á skákstað og njóta alls þess sem staðurinn hefur upp á að bjóða.

No comments yet.

Leave a Reply